Um húsfélagið
Í húsinu er starfandi húsfélag: Bríetartún 9-11, húsfélag (kt. 540119-0660). Það heldur utan um rekstur sameignar hússins og önnur sameiginleg mál eigenda. Allir eigendur í Bríetartúni 9-11 eru aðilar að húsfélaginu lögum samkvæmt. Tvær húsfélagsdeildir eru innan húsfélagsins sem fara með málefni hvors stigagangs fyrir sig. Deildirnar eru inni í heildarhúsfélaginu og reknar sem hluti af því á sömu kennitölu.
Húsfélög eru félög allra eigenda í fjöleignarhúsi og er þátttaka í félaginu hvort tveggja í senn réttur og skylda hvers og eins eiganda. Húsfélög starfa samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 og þar er innra skipulagi þeirra markaður nokkuð skýr og oft ófrávíkjanlegur rammi. Hlutverk og tilgangur húsfélags er aðallega að sjá um varðveislu, viðhald, endurbætur og rekstur sameignarinnar þannig að hún fái sem best þjónað sameiginlegum þörfum eigenda. Einnig að stuðla að og framfylgja því með samþykktum, reglum og ákvörðunum að hagnýting hússins, bæði séreigna og sameignar, sé ávallt með eðlilegum hætti og þannig að verðgildi eigna haldist. Valdsvið húsfélags er bundið við sameignina og ákvarðanir sem varða hana og nauðsynlegar eru vegna hennar og sameiginlegra hagsmuna eigenda.
Húsfundir
Æðsta vald í málefnum húsfélags er í höndum almenns fundar þess, húsfundar. Sért þú með mál til að ræða eða tillögu til að leggja fyrir húsfund sem þarf að setja á dagskrá í fundarboði þá skaltu senda það á stjórn.
Húseigendatrygging
Húsfélagið er með húseigendatryggingu. Nánari upplýsingar um húseigendatrygginguna má finna inni í húsbókinni hjá Eignaumsjón.
Lóð
Lóð hússins er sameiginleg með öðrum húsum á Höfðatorgi og sérstakt rekstrarfélag sér um rekstur, viðhald og endurbætur á lóðinni: Rekstrarfélag um lóð Höfðatorgs, kt. 470515-1200. Samkvæmt samþykktum bæði húsfélagsins og rekstrarfélagsins fer Bríetartún 9-11, húsfélag með aðild eigenda í húsinu að rekstrarfélaginu. Formaður húsfélagsins fer með atkvæðisrétt húsfélagsins.
Bílakjallari
Sameiginlegur bílakjallari hússins og annara húsa á Höfðatorgi er rekinn af sérstöku rekstrarfélagi: Rekstrarfélag um bílakjallara Höfðatorgs, kt. 470515-1390. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu hússins fer eigandi verslunarrýmisins á jarðhæð með hlutdeild hússins í sameiginlegum bílakjallara. Húsfélagið eða aðrir eigendur koma ekki að rekstri bílakjallarans en þeir geta leigt bílastæði þar gegn gjaldi.
Facebook hópur
Eigendum og íbúum stendur til boða að fá aðgang að lokuðum hóp á facebook. Þetta er óformlegur vettvangur sem er notaður til að miðla upplýsingum og ræða hin ýmsu mál af íbúum og eigendum. Þú getur óskað eftir aðgangi að hópnum hér.